top of page
Search

Við þurfum öll fyrirmyndir. Þær sýna okkur hvað er mögulegt

Updated: 4 days ago

Í tilefni Íslensku sjónvarpsverðlaunanna sem verða afhent í næstu viku deili ég textabrotum úr sjálfsævisögulegum ritgerðum sem ég skrifaði í meistaranámi mínu í ritlist og mæli um leið með bókinni „Duna: Saga kvikmyndagerðarkonu“ sem kom út í fyrra eftir Kristíni Svövu Tómasdóttur og Guðrúnu Elsu Bragadóttur.


ree

Rannsóknir sýna að kvikmyndaiðnaðurinn hefur djúpstæð áhrif á viðhorf og sjálfsmynd fólks. Það er ekki síst úr sjónvarpi og kvikmyndum sem fyrirmyndir eru fengnar. Því fleiri konur sem gegna lykilstöðum í kvikmyndaverkefnum, því meiri líkur eru á að konur komi fyrir á skjánum (Collins; Liddy).


ree

Árið 1986 var ég sex ára þegar ég sá Stellu í orlofi í bíó. Gagnrýnandi Dagblaðsins Vísi gaf myndinni tvær og hálfa stjörnu og sagði myndina einkennast af  „kvenrembu.“ Hann hrósaði karlkyns aðalleikaranum í hástert en önnur atriði þóttu honum „miður heppnuð og flöt“ (FRI). Þjóðin var mun jákvæðari enda átti myndin eftir að verða ein ástsælasta íslenska kvikmynd allra tíma.


Þórhildur Þorleifsdóttir leikstýrði og Guðný Halldórsdóttir skrifaði handritið, en þær hafa einnig báðar skrifað og leikstýrt Áramótaskaupinu. Þessar konur urðu mér mikilvægar fyrirmyndir. Þegar við byrjuðum að skrifa Húsó í byrjun árs 2021 var ein af mínum helstu óskum að uppáhaldsleikkona mín frá því ég var barn, sem lék Stellu sjálfa á sínum tíma, myndi leika skólastjórann í Húsó.


Árið 2022 rættist draumur sem ég hafði haft lengi, þegar varð ég sjöunda konan til að leikstýra Áramótaskaupinu, sem hefur sameinað þjóðina við sjónvarpsskjáinn á gamlárskvöld í 59 ár. Skaupið 2022 fékk bestu viðtökur almennings frá upphafi mælinga Maskínu þegar 89% fannst það gott (Maskína).


Mörgum áratugum eftir Stellu í orlofi var Þórhildur spurð hvort hún hefði viljað starfa áfram sem kvikmyndaleikstjóri. Hún svaraði að tækifærin hefðu einfaldlega ekki boðist: „Það hefði vissulega verið gaman, en slík tækifæri buðust bara ekki. Ég held að þarna hafi skipt miklu máli að um var að ræða leikstjóra af kvenkyni. Karlmaður sem hefði náð sama árangri hefði verið kallaður aftur til starfa“ (Björn Þór Vilhjálmsson).


Þórhildur Þorleifsdóttir hefur leikstýrt mörgum verkefnum í leikhúsinu og óperunni á sínum ferli. Í nýlegu viðtali sagði Þórhildur að oft hefði verið illa að henni vegið og erfitt að verjast stanslausum rógi: „Sem er erfitt að svara. Þá ertu bitur eða kvartsár eða erfið“ (Samstöðin).


Þessi reynsla Þórhildar er ekki einsdæmi og samræmist rannsóknum sem sýna að konum í stjórnendastöðum er iðulega refsað (e. penalized) fyrir velgengni í svokölluðum karlastörfum, þar sem þær geta frekar átt von á útilokun en auknum tækifærum (Heilman o.fl.).


Konur eiga erfiðara með að fá verkefni sín fjármögnuð og fá almennt lægri styrki eins og Guðný Halldórsdóttir hefur sjálf fundið:„Þótt ég sé með dýrar myndir, períódu-myndir og svona, þá hef ég alltaf fengið minnsta framlagið frá kvikmyndasjóði. Og það er einungis af því að ég er kona. Ég sé enga aðra ástæðu fyrir því“ (Vera Sölvadóttir).


Konur eru í minnihluta þegar kemur að umsóknum um styrki til kvikmyndagerðar og oft er bent á þá staðreynd, eins og hún útskýri kynjahallann í kvikmyndabransanum á einfaldan hátt. Málið er þó flóknara þegar um kerfislæga mismunun er að ræða.


Löggjöfin er veikburða þegar kemur að styrkveitingum úr Kvikmyndasjóði en þar segir aðeins að „líta skuli til þess hvort styrkurinn stuðli að jöfnun á stöðu kvenna og karla í kvikmyndagerð.“


Í bestu kvikmyndaskólum heims hafa konur lengi verið um helmingur nemenda. En eins og víða annars staðar, þar á meðal á Íslandi, einkennist kvikmyndabransinn af því sem hefur verið kallað hliðvarðakerfi (e. gatekeeping system), þar sem fáir einstaklingar hafa úrslitavald um dreifingu fjármagns og tækifæra, og þar með hverjir fá að taka þátt og hverjir ekki (Lewin; McDougall Jones).


Peningaöflin í heiminum hafa mikil völd, oftast bak við tjöldin, og enn hafa konur ekki jafnan aðgang og karlar að fjármagni. Á hátekjulista Heimildarinnar 2024 voru konur einungis tæp 23% af hópi tekjuhæsta 0,01 prósentsins en á hátekjulistanum öllum voru konur aðeins 18,5% (Steindór Grétar Jónsson).


Kvikmyndamiðstöð birtir afmarkaða kynjatölfræði út frá fjölda umsókna og úthlutanna, en engin heildargreining á dreifingu fjármagns eftir kyni styrkhafa liggur fyrir.


Að sögn Þórhildar Þorleifsdóttur skipti sköpum að konur gengdu öllum lykilhlutverkum við gerð og framleiðslu Stellu í orlofi: „Í fyrsta lagi hefði enginn karlmaður getað skrifað þetta handrit og líklega vandfundinn karlmaður sem hefði getað leikstýrt myndinni. Þ.e.a.s. það hefði þá orðið allt önnur mynd. Það þarf konur til að skilja konur eins og Stellu. Hún býr í öllum konum“ (Björn Þór Vilhjálmsson).



Heimildir:

 

Björn Þór Vilhjálmsson. 2018. „„Konur að verki“: Viðtal við Þórhildi Þorleifsdóttur.“ Hugrás, 22. janúar. https://hugras.is/2018/01/konur-ad-verki-vidtal-vid-thorhildi-thorleifsdottur.

 

Collins, R., L. 2011. „Content Analysis of Gender Roles in Media: Where Are We Now and Where Should We Go?“ Sex Roles 64: 290–298. https://doi.org/10.1007/s11199-010-9929-5.


FRI. 1986. „Sjokk í prógrammið.“ Dagblaðið Vísir. 20. október. https://timarit.is/page/2521507.


Lewin, K. 1947. „Frontiers in Group Dynamics: II. Channels of Group Life; Social Planning and Action Research.” Human Relations (New York), 1 (2):143–53. https://doi.org/10.1177/001872674700100201.


Liddy, S. 2020. „The Gendered Landscape in the International Film Industry: Continuity and Change.“ Women in the International Film Industry, ritstj. Liddy, S. Sviss: Springer Nature.


Liddy, S. 2023. Women, Ageing and the Screen Industries. Cham: Springer International Publishing. https://doi.org/10.1007/978-3-031-18385-0.


Heilman, M., E., og Okimoto, T.,G. 2007. „Why Are Women Penalized for Success at Male Tasks?: The Implied Communality Deficit.” Journal of Applied Psychology 92 (1): 81–92. https://doi.org/10.1037/0021-9010.92.1.81.


Maskína. 2025. „Yfir helmingur landsmanna ánægður með Áramótaskaupið.“ Maskína, 4. febrúar. Sótt á https://maskina.is/yfir-helmingur-landsmanna-anaegdur-med-aramotaskaupid.

 

McDougall Jones, N. 2020. „The 'Confidence Gap' Isn’t Holding Back Women in Film-the Industry Is.“Ms. Magazine, 7. febrúar. https://msmagazine.com/2020/02/07/the-confidence-gap-isnt-holding-back-women-in-film-the-industry-is.

 

Samstöðin. 2025. „Helgi-spjall: Þórhildur Þorleifsdóttir." Rauða borðið, 15. febrúar. https://samstodin.is/show/helgi-spjall-thorhildur-thorleifs.

 

Steindór Grétar Jónsson. 2024. „Það sem hátekjulistinn sýnir okkur." Heimildin, 24. ágúst.

 

Vera Sölvadóttir. 2018. „Í húsi leikstjórans.“ Útvarpsþáttur. Ríkisútvarpið, 10. maí. https://spilari.nyr.ruv.is/utvarp/spila/i-husi-leikstjorans/26944/80ul01.

 

 

 
 
 
bottom of page