top of page
Search

Um dulnefni, höfundarrétt og ríkisstyrkt vandamál

Þrátt fyrir að vera þakklát fyrir viðurkenninguna, hamingjuóskirnar og stolt af minni vinnu, er mér mikilvægast að varpa ljósi á þau kerfislægu vandamál sem liggja að baki Húsó, bæði fyrir og eftir tökur.


Á tímum gervigreindar og upplýsingaóreiðu, þegar tjáningarfrelsi er allt í einu ekki lengur sjálfsagt, er vernd höfundaréttar mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Svo virðist einnig sem ekki allir hlutaðeigandi í Húsó hafi fengið réttar upplýsingar.


ree


Í 4. gr. höfundaréttarlaga segir: „Skylt er, eftir því sem við á, að geta nafns höfundar bæði á eintökum verks og þegar það er birt.“Þrátt fyrir það var sjónvarpsserían sýnd án þess að hvorki nafn mitt né dulnefni, sem ég hafði beðið skýrt um og átti skýlausan rétt á, birtist nokkurn tímann á skjánum.


Fyrir frumsýningu þáttanna var beiðni minni, um að ég yrði krediteruð undir dulnefninu Hekla Hólm, hafnað og mér tjáð að „slíkt myndi vekja fleiri spurningar en svör“ og að það tíðkaðist ekki hér á landi.


Á ferilskrá minni má hins vegar sjá vel þekkt dæmi um notkun dulnefna í bransanum á Íslandi. Stella Blómkvist er dulnefni höfundar samnefnds bókaflokks. Þrátt fyrir að ég hafi verið einn höfunda sjónvarpsseríunnar Stella Blómkvist 2, sem byggð var á bókunum, fékk ég aldrei að vita hver var á bak við dulnefnið.


Réttur höfunda til að nota dulnefni á sér langa sögu í bókmenntum og kvikmyndagerð. Í handritshöfundasamningum í Bandaríkjunum er sérstaklega fjallað um rétt höfunda til að nota dulnefni, ef þeir vilja ekki að raunverulegt nafn þeirra tengist verkefninu, hvort sem það er af persónulegum, listrænum eða viðskiptalegum ástæðum (Writers Guild of America West).


Handritshöfundurinn Dalton Trumbo var settur á svartan lista í Hollywood á fimmta áratug síðustu aldar, ásamt fleiri höfundum sem bendlaðir voru við kommúnisma. Hann brá á það ráð að nota dulnefnið Robert Rich og vann Óskarsverðlaun undir því nafni (Kelly).


Leikstjórinn Steven Soderbergh hefur ítrekað notað nöfn foreldra sinna, Peter Andrews og Mary Ann Bernard í eigin verkum. Þegar komið hefur að viðurkenningum vegna verkefnanna hefur þó verið tekið fram að um Soderbergh sjálfan væri að ræða (Mulcahey).


ree

Sögurnar sem birtast okkur í menningarefni og fjölmiðlum eru nútímadæmisögur. Forsenda verkefnisins Húsó var frá upphafi skýr frá minni hlið – ég vildi segja batasögu. Með því að miðla jákvæðum reynslusögum er fólki sem enn þjáist gefin von. Fólk þarf fyrirmyndir til að trúa því að bati sé yfirhöfuð mögulegur.


Í vinnuskjali fyrir Húsó, frá því ég vann að verkefninu, stendur:


„Í lokin fær hún íbúð hjá Féló. Allt lítur vel út. Hún fær aukinn heimsóknarrétt með barninu sínu og möguleika á fullu forræði.“


Í lokaútgáfu handritanna, sem ég fékk því miður ekki aðkomu að, hafði að mínu mati orðið algjör viðsnúningur á grundvallarforsendu verksins – og þeirri sögu sem ég vildi segja. Þrátt fyrir það voru nær allir karakterar, sambönd þeirra, söguþræðir, senur og fjölmörg smáatriði þau sömu og þegar ég vann að verkefninu.


Aðalsöguhetjan í Húsó fellur á einum tímapunkti, en sú hugmynd kom úr minni eigin reynslu af því að hafa sjálf fallið eftir meðferð. Í þáttunum sem birtust í sjónvarpinu er hún hins vegar stuttu seinna á leið í meðferð, sem var ekki mín hugmynd. Fyrir manneskju sem hefur farið oftar en einu sinni í meðferð á Íslandi getur biðtími eftir plássi verið margir mánuðir. Sú staðreynd hefur kostað ótal mannslíf og var ástæða þess að ég þurfti sjálf að lokum að fara til Svíþjóðar í meðferð.


Að mínu mati var í þáttunum Húsó því miður litið fram hjá þeim kerfislægu vandamálum sem liggja að baki erfiðleikum persónanna.


Þroskaferðalag aðalsöguhetjunnar í Húsó virðist helst hafa falist í því að hætta að hafa hátt og verða þess í stað þæg, þakklát og þögul.

 

Leikkonan Najattaajaraq Joelsen frá Grænlandi sagði mér að þegar henni býðst að fara í prufur fyrir erlend verkefni, hafi það oft verið fyrir hlutverk grænlenskrar konu sem er annaðhvort alkóhólisti eða viðhald, og söguþræðir slíkra persóna enda yfirleitt í eymd, volæði eða dauða. Hún sagðist ekki vilja samþykkja þessar staðalmyndir og spyr nú alltaf áður en hún mætir í prufu:


„Fær þessi persóna að vaxa?“ (e. Will the character grow?)


Í lokaþættinum var Hekla sýnd sem vonlaus fíkill á leiðinni í enn aðra meðferðina, en sú birtingarmynd staðfestir einungisþau skaðlegu viðhorf sem enn ríkja í samfélaginu, að fólki með fíknivanda sé einfaldlega ekki viðbjargandi og því óþarfi fyrir stjórnvöld að bregðast við með markvissum hætti.


Þar með glataðist dýrmætt tækifæri fyrir viðkvæman hóp sem þarf fyrst og fremst von, stuðning og áheyrn, ekki meiri útskúfun.


Fólk sem nýtur forréttinda að einhverju leyti getur ómeðvitað ýtt undir fordóma og skaðlegar staðalímyndir vegna skorts á innsýn og reynslu. Því er brýnt að sýna virðingu og fá samþykki þeirra sem tilheyra jaðarsettum hópum þegar sögur þeirra eru sagðar.


Höfundaréttur felur í sér tvenns konar réttindi: sæmdarrétt og fjárhagsleg réttindi. Í sæmdarrétti felst meðal annars réttur höfundar til að fá viðurkenningu fyrir verk sitt, að ákveða hvenær opinber birting á sér stað, og vernd gegn afbökun eða ótilhlýðilegri meðferð verksins (Alþingi).



Mótmæli mín báru hins vegar ekki árangur.


ree

Í janúar á þessu ári voru þættirnir Húsó tilnefndir til Nordic Series Script Awards, eina virtustu viðurkenningu sem handritshöfundum á Norðurlöndum getur hlotnast, fyrir besta handrit.


Lögfræðingur minn og Rithöfundarsambandið sendu formlega beiðni um að mínu nafni, ásamt dulnefninu Hekla Hólm, yrði bætt við tilnefninguna, en slík alþjóðleg viðurkenning getur skipt sköpum fyrir handritshöfunda og opnað dyr að frekari tækifærum.


Þeirri beiðni var hafnað.


Skaða- og miskabætur vegna brota á höfundarétti á Íslandi hafa sjaldan verið dæmdar hærri en örfáar milljónir króna. Það þýðir að jafnvel þótt höfundur fái dóm í sinn hag, tapar hann líklegast fjárhagslega.


Gjafsóknarnefnd dómsmálaráðuneytisins hefur ítrekað hafnað umsóknum vegna höfundaréttamála á þeim grundvelli að málið „varði atvinnu stefnanda“. Þetta þýðir í reynd að enginn starfandi listamaður á Íslandi getur fengið gjafsókn í málum er varða brot á höfundarétti.


Skilaboðin til skapandi listafólks án fjármagns eru skýr: það stendur varnarlaust gagnvart valdameiri aðilum sem geta gengið á réttindi þess, jafnvel í verkefnum sem eru að mestu leyti fjármögnuð með almannafé. Einstaklingar sem hafa ekki fjárhagslega burði til að sækja þann rétt sem þeir eiga samkvæmt lögum, standa því eftir án raunverulegra úrræða.


Ríkisstyrkt vandamál er látið vera einkamál.


Eftir yfir tveggja ára stöðuga baráttu var það því stór áfangi þegar ég, ásamt dulnefni, var í fyrsta sinn nefnd opinberlega sem einn af höfundum þáttanna, þegar tilnefningar til Íslensku sjónvarpsverðlaunanna voru tilkynntar nýlega.



ree


Mér er mikilvægt að benda á að óþægindi sem kunna að skapast vegna þessa máls eiga rætur sínar í kerfislægum vandamálum.


Í menningu þar sem sögur hafa að mestu verið sagðar frá sjónarhóli hvítra, ófatlaðra, gagnkynhneigðra karla er fólk almennt vant því að setja sig í þeirra spor umfram annarra (Mulvey; hooks). Hugtakið „hannúð“ (e. himpathy) vísar til þess hvernig réttarkerfið, fjölmiðlar og almenningur eiga oft auðveldara með að finna samúð með karlkyns gerendum en kvenkyns þolendum (Manne).

 

Ég vona að reynsla mín varpi skýru ljósi á aðkallandi málefni sem varða jaðarsetta hópa, þar á meðal fólk með fíknivanda, og á grundvallarréttindi þeirra sem starfa við listir og nýsköpun á Íslandi.




Fyrir áhugasama um höfundarrétt hef ég gert greiningu á fyrsta þætti Húsó, með vísan í dagsett gögn frá því ég vann handritið sem einstaklingsverkefni í ritlistarnámi mínu við Háskóla Íslands og á nokkrum námskeiðum hjá The Second City.






Heimildir:



Alþingi. e.d. Höfundalög nr. 73/1972. Sótt 8. mars 2025 á á https://www.althingi.is/lagas/154b/1972073.html.


hooks, b. 2003. The Will to Change: Men, Masculinity, and Love. New York: Washington Square Press.

Kelly, L. 2024. Hollywood Blacklisted Him, and Still He Won an Oscar. Collider. https://collider.com/dalton-trumbo-oscar.

Manne, K. 2019. Down Girl: The Logic of Misogyny. Oxford: Oxford University Press.

 

Mulcahey, M. 2025. Paging Peter Andrews: Steven Soderbergh on Being His Own DP. Filmmaker.

 

Mulvey, L. 2003. „Sjónræn nautn og frásagnarkvikmyndin.“ Þýð. Heiða Jóhanssdóttir. Áfangar í kvikmyndafræðum, ritstj. Guðni Elísson, 330-341. Reykjavík: Forlagið.

 

Teitur Skúlason. 2010. „Framsal á sæmdarrétti samkvæmt 3. mgr. 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972." MA-ritgerð, Lagadeild Háskóla Íslands. https://skemman.is/bitstream/1946/4989/1/Ritgerð8.pdf.


Writers Guild of America West. 2022. „Creative Rights for Writers of Theatrical and Long-Form Television Motion Pictures.“ Writers Guild of America West, https://www.wga.org/contracts/know-your-rights/creative-rights-for-writers.


 
 
 

Comments


bottom of page