top of page
Search

Réttlæti fylgir fjármagni

Er það réttlæti ef það kostar meira að sækja mál en fæst fyrir að fá viðurkenndan rétt fyrir dómstólum?

Gjafsókn er fjárhagslegur stuðningur ríkisins við einstaklinga sem ekki hafa bolmagn til að reka dómsmál. Skilyrði fyrir slíkum stuðningi eru að mál hafi almennt gildi eða fordæmisgildi, eða að fjárhagur umsækjanda sé svo veikur að hann geti ekki sótt rétt sinn án aðstoðar (Alþingi).

Lögmaður minn sendi gjafsóknarbeiðni til dómsmálaráðuneytisins vegna málsóknar sem laut að viðurkenningu á höfundarétti mínum og skaða- og miskabótum vegna brota á samningi og höfundarrétti.

ree


Beiðninni fylgdu skriflegar stuðningsyfirlýsingar frá Rithöfundasambandi Íslands (RSÍ), Bandalagi Íslenskra Listamanna (BÍL), Bandalagi Háskólamanna (BHM) og Félagi leikskálda og handritshöfunda (FLH).


BHM sagði meðal annars í sinni yfirlýsingu:

„Mjög sterkar vísbendingar eru til staðar um að ekki hafi verið gætt að sæmdar- og höfundarrétti Dóru í málinu og má m.a. finna í málinu skrifleg gögn málstað hennar til stuðnings. Er mikilvægi málsins ótvírætt. “

Og einnig:

„Vinnuumhverfið er almennt erfitt fyrir handritshöfunda og fólk í skemmtanaiðnaðinum á Íslandi enda um að ræða tiltölulega lítinn og fámennan vinnumarkað. Höfundar eru því sérlega berskjaldaðir gagnvart yfirburðarstöðu framleiðslufyrirtækja og sjónvarpsstöðva.“

Í stuðning BÍL kom meðal annars fram:

„Niðurstaða í málinu getur þannig haft almenna þýðingu, jafnvel fordæmisgildi, að því er varðar hvort og þá hvernig hægt er að breyta höfundarverki, án samráðs við höfund og án þess að láta framlags viðkomandi getið.“

Í yfirlýsingu FLH kom fram að niðurstaða í málinu:

 „getur skipt alla handritshöfunda máli.“

Stjórn RSÍ áréttaði að:

„Það er ófrávíkjanleg regla að virða skuli höfundarétt og sæmdarrétt“

RSÍ lagði auk þess áherslu á að að ólíðandi væri að aðilar nýti sér yfirburðastöðu sína gagnvart handritshöfundi til að eigna sér höfundaverk annarra. Þrátt fyrir stuðning fagfélaga var gjafsóknarbeiðni minni hafnað sex mánuðum síðar á þeim forsendum að málið varðaði atvinnu mína. Gjafsóknarnefnd hefur áður hafnað sambærilegum beiðnum á sömu forsendum – að málið tengist atvinnu viðkomandi. Í reynd þýðir það að enginn starfandi listamaður eða sjálfstætt starfandi höfundur á Íslandi getur fengið gjafsókn í málum sem varða höfundarétt eða rétt sinn sem skapandi starfsmaður.


Einstaklingar sem ekki hafa efni á að bera þann mikla lögfræðikostnað sem fylgir slíkum málum standa því eftir án raunverulegra úrræða. Heimilistryggingar ná ekki yfir mál sem tengjast atvinnu, og því virðist enginn þurfa að axla ábyrgð á sannreyndum brotum nema listamaður höfði sjálfur einkamál – með mikilli fjárhagslegri áhættu. Ég hef þegar greitt rúmlega tvær milljónir króna í lögfræðikostnað, og líklegt er að málshöfðun myndi bæta við allt að þremur milljónum. Ef ég myndi tapa málinu gæti ég auk þess þurft að greiða málskostnað gagnaðila. Skaða- og miskabætur vegna höfundaréttarmála á Íslandi hafa sjaldan verið dæmdar hærri en örfáar milljónir króna. Sem dæmi má nefna:  

Árið 2021 voru afkomendum listamannsins Jóns Kristinssonar dæmdar 12 milljónir króna í bætur, sem teljast með hæstu fjárhæðum sem dæmdar hafa verið í höfundaréttarmáli hér á landi. Bótaupphæðin var vegna ólögmætrar notkunar á 168 verkum, sem samsvarar um 70.000 krónum á hvert verk (LEX).

 

Fordæmi í málum sem varða höfundarétt sýna að jafnvel þótt mér yrði dæmt í hag, myndi ég samt tapa fjárhagslega. Skilaboðin til skapandi listafólks án fjármagns eru skýr, þau eru varnarlaus gagnvart valdameiri aðilum, sem geta óhindrað gengið á réttindi þeirra, jafnvel í verkefnum sem eru að mestu leyti ríkisstyrkt.

Kerfislægt ofbeldi (e. structural violence) vísar til þess hvernig samfélagsleg kerfi eða stofnanir viðhalda óréttlæti, misrétti eða jaðarsetningu, jafnvel þótt formleg réttindi séu til staðar (Galtung).

 

Þegar enginn þarf að axla ábyrgð eða mæta afleiðingum gjörða sinna fær ofbeldi og misrétti í raun „grænt ljós“ frá samfélaginu og viðgengst.



  Tilvitnanir í yfirlýsingar BHM, BÍL, RSÍ og FLH eru teknar úr skriflegum stuðningsyfirlýsingum sem bárust með gjafsóknarbeiðni árið 2024 til dómsmálaráðuneytisins.

Heimildir:

Alþingi. e.d. Lög um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sótt 8. mars 2025 á https://www.althingi.is/lagas/143b/2013023.html.

Galtung, J. 1969. „Violence, Peace, and Peace Research.“ Journal of Peace Research, 6(3), 167–191. https://doi.org/10.1177/002234336900600301.

LEX Lögmannsstofa. 2021. „Damages awarded for copyright infringements.“ 30. nóvember. https://www.lex.is/en/damages-awarded-for-copyright-infringements.

 
 
 
bottom of page