Húsmæðraskólagenginn höfundur útskrifast í kvennaverkfalli
- Dóra Jó

- Oct 28
- 6 min read

Blendnar tilfinningar fylgja þeirri táknrænu tilviljun að brautskráning mín úr meistaranámi í ritlist við Háskóla Íslands skuli bera upp á sama dag og kvennaverkfallið.
Í ritlistarnáminu, sem hefur verið mér innblástur, næring og skjól síðustu árin, hef ég skrifað mikið um jafnréttismál, kynbundið ofbeldi, áhrifin sem sögurnar í menningunni okkar hafa og höfundarétt.
Ég skrifaði m.a. þættina Húsó sem einstaklingsverkefni í náminu, en í vikunni var tilkynnt að serían fékk flestar tilnefningar til íslensku sjónvarpsverðlaunanna fyrir árið 2024, þar á meðal fyrir besta handrit. Þar var ég loks krediteruð, sem var stór og gleðilegur áfangi.

Í tilefni dagsins langar mig að deila eftirfarandi textabrotum úr ritgerð sem ég skrifaði í náminu:
Menntun er máttur, en valdhafar hafa sögulega hindrað aðgang undirskipaðra hópa að menntun og upplýsingum til að koma í veg fyrir uppreisn gegn valdakerfinu.
Fram yfir síðustu heimstyrjöld voru margir sem töldu að menntun karla og kvenna ættu að vera aðskilin, og sniðin að því sem væri við þeirra hæfi. Hin óskráða stefna í málefnum kvenna á Íslandi var að allar konur skyldu ganga í húsmæðraskóla, gæta bús og barna og þar með efla siðferði þjóðarinnar og viðhalda hinni óspilltu sveitamenningu (Valborg Sigurðardóttir).
Húsmæðraskólinn í Reykjavík var stofnaður árið 1941, en slíkir skólar störfuðu víða á landinu upp úr aldamótum og voru oft eina menntunin sem bauðst konum. Árið 1964 voru breytingar á lögum og ákveðið að breyta nafni skólans í Hússtjórnarskólann í Reykjavík.
Frá því ég lauk áfengismeðferð í Svíþjóð árið 2020 hef ég fengið að vera edrú. Sem hluti af endurhæfingu minni ákvað ég að skrá mig í nám við Hússtjórnarskólann í Reykjavík, sem nemendur kalla „Húsó.“ Frá Margréti Sigfúsdóttur skólastjóra heitinni upplifði ég ómetanlegan stuðning þegar ég var að taka fyrstu skrefin í mínu bataferðalagi.
Ég deildi nánast daglega myndum og myndskeiðum þegar ég var nemandi skólanum á samfélagsmiðlum (sjá highlights: Húsó 2020 á instagram @dorajohanns), en þessar færslur fengu mikil og jákvæð viðbrögð og fjölmiðlar slógu reglulega upp fréttum upp úr þeim.


Stuttu eftir útskrift byrjaði ég, ásamt öðrum, að skrifa sjónvarpsþætti byggða á eigin reynslu, um einstæða móður sem fer í Húsó eftir meðferð. Vinnutitill verkefnisins í upphafi var „Hekla“ í höfuðið á aðalkarakternum, íslenskt kvenmannsnafn af keltneskum uppruna.
Í janúar 2022 átti ég fund með dagskrárstjóra RÚV vegna Áramótaskaupsins sem ég hafði þá sótt um að leikstýra. Á þeim fundi fékk ég óvænt grænt ljós (e. greenlight) á sjónvarpsseríuna Húsó.
Samkvæmt fornleifafræðingnum Þorvaldi Friðrikssyni eiga margir af bestu þáttum víkingamenningar, svo sem ljóðlist og tónlist, uppruna sinn í keltneskri menningu. Sú staðreynd hefur verið hunsuð ásamt rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar sem hefur leitt í ljós að 63% landnámskvenna komu frá Írlandi og Skotlandi (Carrell). Rætur flestra Íslendinga má því rekja til norrænna víkinga og þeirra keltnesku kvenna sem þeir rændu á leið sinni hingað. Saga Íslendinga hefst í raun með kynbundnu ofbeldi.
Flestir þekkja nöfn Halldórs Laxness og Gunnars Gunnarssonar en færri hafa heyrt um Torfhildi Þorsteinsdóttur Hólm (1845–1918), fyrsta Íslendinginn sem hafði ritstörf að atvinnu og skrifaði sögulegar skáldsögur. Torfhildur var brautryðjandi, en karlar sem fylgdu í fótspor hennar nýttu oft efni úr verkum hennar án þess að viðurkenna hennar framlag (Helga Kress).
Sögurnar sem fá pláss í menningarefni og fjölmiðlum endurspegla sjaldan fjölbreytileika samfélagsins, en þeir sem hafa greiðastan aðgang að fjölmiðlum eru þeir sömu og hafa aðgang að efnahagslegum, pólitískum og menningarlegum völdum, oftast hvítir, gagnkynhneigðir, ófatlaðir karlar. Konur hafa kerfisbundið verið vanmetnar, hunsaðar, arðrændar, þaggaðar niður og gerðar merkingarlausar í gegnum söguna. Þannig hefur undirskipan þeirra verið viðhaldið (Lerner).
Á upphafsárum kvikmyndanna höfðu konur mikil áhrif á mótun listformsins eins og t.d. Alice Guy-Blaché, sem var ein af fyrstu kvikmyndaleikstjórum sögunnar. Frá 1911–1929 voru konur um helmingur handritshöfunda í Bandaríkjunum og hugmyndir um kvenfrelsi voru algeng umfjöllunarefni, eins og í myndum Lois Weber frá árunum 1916 – 1917 sem fjalla um getnaðarvarnir og þungunarrof (White). Eftir því sem kvikmyndaiðnaðurinn stækkaði og fór að velta meiri fjármunum var skapandi konum í áhrifastöðum smám saman ýtt til hliðar, og bransinn hefur síðan verið á valdi karla (Bielby).
Karlkyns sjónarhorn hefur nær alltaf verið ríkjandi í kvikmyndasögunni þar sem 97% allra kvikmynda frá upphafi hafa verið í leikstjórn karla (Liddy). Á Íslandi hefur um 90% allra leikinna mynda í fullri lengd verið leikstýrt af körlum. Kannanir sýna að konur upplifa íslenska kvikmyndabransann sem karllægan, óvinveittan og jafnvel fjandsamlegan gagnvart konum í valdastöðum og að konur haldi síður störfum í greininni en karlar (Guðrún Elsa Bragadóttir).
Fyrsta íslenska kvikmyndin í leikstjórn konu var eignuð karlkyns tökumanni hennar og framleiðanda. Það var myndin Ágirnd eftir Svölu Hannesdóttur sem kom út árið 1952 (Anna María Björnsdóttir). Guðný Halldórsdóttir fékk ekki sömu athygli fyrir kvikmyndir sínar og starfsbræður hennar. Hlutur hennar í eigin kvikmyndum var oft dreginn í efa í fjölmiðlaumfjöllunum þar sem eiginmanni hennar eða föður var iðulega eignaður stór hlutur í verkum hennar (Jóna Gréta Hilmarsdóttir).
Margir segja að kvikmyndabransinn á Íslandi sé „eins og villta vestrið,“ og vísa þannig til vafasamra starfshátta sem viðgangast án afleiðinga. Starfsfólk er aðeins í undantekningartilfellum launþegar; tekjur flestra byggjast nær eingöngu á verktakagreiðslum. Engir kjarasamningar eru til staðar sem viðmið um greiðslur fyrir verkefni og því ræðst samningsstaða fólks algjörlega af aðstöðumun. Starfsöryggi er lítið sem ekkert og án stéttarfélaga er best fyrir fólk að „rugga ekki bátnum“ ef það vill fá fleiri verkefni.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að fjölmiðlar viðhalda kynjaskekkju samfélagsins með ójafnri umfjöllun um kynin og stöðluðum kynjaímyndum (Collins).
Einstaklingar mæta ólíku viðmóti í samfélaginu út frá kyni, litarhafti, þyngd, aldri, þjóðerni og fleiri þáttum. Því er upplifun hvers og eins á heiminum einstök.
Þegar rætt er um tjáningarfrelsi í dag, hugsa flestir um „réttinn til að tala frjálst.“ En sögulega séð voru meginrökin fyrir mikilvægi frjálsrar tjáningar tengd við ávinning þess að almenningur fengi að heyra, íhuga og meta ólík sjónarmið (Mill, Milton).
Þess vegna skiptir máli að við fáum að sjá og heyra fólk segja sögur frá fjölbreyttum sjónarhornum. Þannig getum við reynt að setja okkur í spor hvors annars, fundið til samkenndar og sýnt upplifun ólíkra einstaklinga skilning og virðingu, jafnvel þótt hún sé okkur framandi.
„Við erum brot úr speglinum, sundruð frá heildinni. Þegar við setjum brotin saman aftur, sjáum við okkur sjálf og heiminn sem eina heild.“ – tilvitnun sem rakin er til súfískáldsins Rúmí.
Ég er ótrúlega þakklát kennurunum, bæði í Húsó og í ritlistinni, fyrir innblásturinn og hvatninguna og samnemendum mínum fyrir samfylgdina. Ég kann ennþá ekki að elda en ég hlakka til að halda áfram með þau verkefni sem ég hef verið að skrifa og deila þeim með heiminum.
En í dag er ég í verkfalli.
Ég vonast til að sjá sem flestar konur og kvár niðri í bæ því bakslagið í jafnréttisbaráttunni er raunverulegt, og með samstöðu getum við haft áhrif.
„A word after a word after a word is power.”
– Margaret Atwood.

(Textinn var fyrst birtur á facebook síðu Dóru 24.október 2025)
Heimildir:
Anna María Björnsdóttir. 2024. “Linsan – Konur í kvikmyndagerð.” Ríkisútvarpið, útvarpsþáttur, 5. júlí. https://www.ruv.is/utvarp/spila/linsan-konur-i-kvikmyndagerd/36681/atq4sh.
Bielby, D. 2009. “Gender Inequality in Culture Industries: Women and Men Writers in Film and Television.” Sociologie du Travail 51 (2). https://doi.org/10.4000/sdt.16462.
Carrell, S. 2023. “Is Iceland’s Language a Norse Code – or Legacy of Celtic Settlers?” The Guardian, 4 January. https://www.theguardian.com/world/2023/jan/04/iceland-language-culture-inspired-gaelic-settlers-says-author.
Collins, R. L. 2011. “Content Analysis of Gender Roles in Media: Where Are We Now and Where Should We Go?” Sex Roles 64: 290–298. https://doi.org/10.1007/s11199-010-9929-5.
Dóra Jóhannsdóttir (@dorajohanns). 2025. “Húsó (2020).” Instagram Highlights.https://www.instagram.com/stories/highlights/18054416563841258.
Guðrún Elsa Bragadóttir. 2020. “Out in the Cold? Women Filmmakers in Iceland.” In Women in the International Film Industry: Policy, Practice and Power, ed. S. Liddy. Switzerland: Springer Nature. https://doi.org/10.1007/978-3-030-39070-9_11.
Helga Kress. 2002. “Á hverju liggja ekki vorar göfugu kellíngar.” Saga 40 (2).
Jóna Gréta Hilmarsdóttir. 2021. Falin fyrirmynd: Femínísk greining á fjölmiðlaumræðu. BA ritgerð í kvikmyndafræði, Háskóli Íslands.
Lerner, G. 1986. The Creation of Patriarchy. Oxford: Oxford University Press.
Liddy, S. 2020. “The Gendered Landscape in the International Film Industry: Continuity and Change.” In Women in the International Film Industry, ed. S. Liddy. Switzerland: Springer Nature.
Mill, J. S. 2003. On Liberty. Yale University Press.
Milton, J. 1999. Areopagitica. Ed. J. Alvis. Liberty Fund.
Valborg Sigurðardóttir. 2005. Íslenska menntakonan verður til. Reykjavík: Bókafélagið.
White, P. 1998. “Feminism and Film.” In The Oxford Guide to Film Studies, eds. J. Hill and P. C. Gibson. Oxford: Oxford University Press.



Comments