Fíkn verður ekki til í tómarúmi
- Dóra Jó
 - 4 days ago
 - 4 min read
 
Í tilefni þess að Íslensku sjónvarpsverðlaunin verða afhent í kvöld, langar mig að deila texta úr ritlistarnáminu mínu sem fjallaði m.a. um þættina Húsó, verkefni sem byggði á minni eigin reynslu sem nemandi í skólanum eftir að ég kom úr meðferð.

Það skiptir mig máli að varpa ljósi á kerfislægan vanda sem snertir okkur öll á einhvern hátt og leggja jafnframt áherslu á mikilvægi þess að gefa jaðarsettum röddum pláss og segja sögur um bata.
Markmið mitt með Húsó var að segja jákvæða batasögu í upplýsandi og skemmtilegri sjónvarpsseríu, en í flestum sögum um fólk með fíknivanda í sjónvarpi og bíó er áhersla lögð á eymdina og vonleysið og iðulega enda þær sögur illa.
Með því að segja jákvæðar reynslusögur er fólki sem enn þjáist gefin von. Fólk þarf fyrirmyndir til að trúa að bati sé yfirhöfuð möguleiki.
Samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar liggur engin skýr stefna eða aðgerðaráætlun fyrir hjá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig skuli takast á við fíknivanda (Ríkisendurskoðun). Ótal manns deyja vegna skorts á meðferðarúrræðum á hverju ári, margir langt fyrir aldur fram.
Fíkn verður ekki til í tómarúmi.
Rannsóknir sýna að fíknivandi er beintengdur félagslegum þáttum.
Gabor Mate er einn þekktasti sérfræðingur heims þegar kemur að fíknivanda. Hann segir ranghugmyndir varðandi fíkn vera ríkjandi í samfélaginu sem ýtir undir fordóma og jaðarsetningu fólks sem þjáist.
Hann leggur áherslu á að fíkn sé alls ekki val, eins og margir virðast enn halda, heldur viðbragð við þjáningu.
Fíkn eigi alltaf eiga upptök sín í sársauka, hvort sem hann er sýnilegur eða falinn í undirmeðvitundinni.
Algengt sé að finna orsök fíknivanda fólks í áföllum, streitu og félagslegri aftengingu, sem sé algengt þar sem misrétti og óréttlæti er kerfisbundið (Mate).
Erfiðar lífsreynslur þurfa ekki að verða að áföllum (e. trauma). Það er talið fara eftir því hvort manneskjan fái viðeigandi stuðning til að vinna úr eða ná utan um upplifuna, hvort það verði henni áfall eða ekki.
Þegar fólk fær ekki viðurkenningu á upplifun sinni eða viðeigandi stuðning er mun líklegra að það þrói með sér andlega og/eða líkamlega heilsuvanda í kjölfarið.
„Trauma is not what happens to us, but what we hold inside in the absence of an empathetic witness.“ sagði áfallasérfræðingurinn Peter Levine. Þannig geta tveir einstaklingar upplifað sömu erfiðu lífsreynsluna, en aðeins annað þeirra þróar með sér áfallstreitu-einkenni en hinn ekki.
Fólk getur þróað með sér fíkn í ótal ólík efni en við getum líka orðið háð öðru fólki, hugsunum og hegðun. Öll fíkn virkjar sömu svæði í heilanum og framkallar sömu boðefni í heilanum (Mate).
Fíkni-hegðun er eins og eitraður plástur á djúp og grafandi sár. Hún veitir aðeins tímabundna lausn, en sárin ná aldrei að gróa undir þeim plástri.
Í bókinni Dopamine Nation segir sálfræðingurinn Anna Lembke að heimurinn sem við búum í sé orðið að vistkerfi fíkna (e. ecosystem of addiction). Hún deilir jafnframt með lesendum sínum eigin reynslu af því að þróa með sér fíkn í rómantískar ástarsögur.
Hún skilgreinir fíkn sem endurtekið hegðunarmynstur, þar sem við sækjum stöðugt í vellíðan sem endist í skamman tíma, jafnvel þótt það valdi okkur og öðrum skaða til lengri tíma.
Nánast hvað sem er getur orðið að fíkn: snjallsímar, samfélagsmiðlar, peningar, tölvuleikir, klám, kynlíf, innkaup, líkamsrækt, vinna, viðurkenning, sambönd og margt fleira.
Í kjarna sínum er fíkn bjargráð, lausn við einhverjum vandamálum, þótt við séum ekki endilega meðvituð um það.
Við reynum að deyfa tilfinningar okkar og forðast raunveruleikann, annaðhvort með því að innbyrða efni sem láta okkur líða betur, eða með hegðun sem lætur líkamann framleiða þau hormón sem við erum að leitast eftir að fá.
Þegar við eigum við einhversskonar fíknivanda eða stjórnleysi á einhverjum sviðum lífsins, þá reynist okkur ómögulegt að vera andlega á staðnum. Við verðum aftengd.
Rithöfundurinn Johann Hari sagði: „The opposite of addiction is not sobriety, it is connection“.
Anne Lembke leggur áherslu á heiðarleika sem leið út úr fíknimynstrum. Að segja sannleikann, bæði við okkur sjálf og aðra, er fyrsta skrefið út úr afneituninni sem heldur fíkninni gangandi, sama að hverju hún beinist.
Margir eru í afneitun gagnvart hlutum sem þeim finnst of óþægilegt eða sársaukafullt að horfast í augu við. Afneitun er ekki heldur val.
Til að verða raunverulega edrú þarf að tileinka sér heilbrigð bjargráð, sem felast m.a. í að tengjast sjálfum sér og öðru fólki, að leyfa tilfinningum sem eru föst í kerfinu að koma fram.
Í bataferlinu þarf að bera ábyrgð, við förum smám saman að setja erfiða atburði úr fortíðinni í jákvætt samhengi með því að miðla okkar reynslu, styrk og von til annarra, vera til staðar og gefa af okkur.
Heilbrigðu bjargráðin virka eins og græðandi plástur og sárin geta loks byrjað að gróa.
Þegar við höfum hugrekki til að horfast í augu við eigin sannleika, líka þegar hann er sársaukafullur eða óþægilegur, sköpum við rými fyrir raunveruleg og heilbrigð tengsl við okkur sjálf, umhverfið og aðra.
Heiðarleikinn gerir okkur einfaldlega frjáls.
„Recovery from trauma is not about erasing the past; it is about reclaiming our power and rewriting our future.“ - Peter Levine.
Heimildir:
Hari, J. (2015). Chasing the Scream: The first and last days of the war on drugs. Bloomsbury.
Lembke, A. (2021). Dopamine Nation: Finding Balance in the Age of Indulgence. Dutton.
Levine, P. (e.d). „About Dr. Levine.“ Ergos Institute of Somatic Education. Sótt á https://www.somaticexperiencing.com/about-peter
Mate, G. (2022). The Myth of Normal. Trauma, Illness and Healing in a Toxic Culture. London: Penguin Random House.
Ríkisendurskoðun. (2024). „Ópíóðavandi – staða, stefna og úrræði (hraðaúttekt)." 20. mars. https://www.rikisend.is/skyrslur/nanar