top of page
Search

Dulið einelti og þöggun í listum

Í dag, 8. nóvember, er alþjóðlegur dagur gegn einelti.


Einelti er ekki alltaf sýnilegt eða skipulagt.

Það á sér stað meðal fullorðinna ekki síður en unglinga eða barna og getur haft djúpstæð áhrif á fólk á öllum aldri.


Dulið einelti, einnig kallað óbeint eða andlegt einelti, getur verið svo falið að þolandi á erfitt með að skilgreina það eða lýsa því fyrir öðrum.

Fólk sem tjáir sig um ofbeldi, misrétti eða spillingu upplifir oft félagslega útskúfun og skert tækifæri eftir að hafa sagt frá sinni reynslu.

ree

Einelti er ofbeldi. Og afstöðuleysi er afstaða.

 

Dæmi um dulið einelti eru baktal, dreifing á kjaftasögum, útilokun, hunsun eða þöggun.


Aðferðir til að þagga niður í konum sem ögra valdakerfum má rekja allt aftur til fyrstu skráðu laga frá valdatíma Urukagina (24. öld f.o.t.), kóngs í Súmer í Suður–Mesópótamíu:


„If a woman speaks […] disrespect-fully(?) to a man, that woman's mouth is crushed with a fired brick“ (Lerner).

Hugtakið „hystería“ (úr gríska orðinu „hystera“, sem þýðir leg) var löngum notað til að gera konur ómarktækar (Carta o.fl.).


Nútíma aðferðir til að þagga niður í konum felast meðal annars í því að gera þær á einhvern hátt ótrúverðugar.

Þær eru gjarnan sagðar of reiðar, í of mikilli geðshræringu eða sakaðar um að gera sig að fórnarlömbum.

Þær eru sagðar vera að misskilja, þykja hlægilegar, kallaðar „erfiðar“, „geðveikar“ eða eru einfaldlega hunsaðar.

Þöggunin birtist einnig í því að „óþægilegum röddum“ af hvaða kyni sem er, sem ögra ríkjandi valdakerfum, er ekki gefið pláss í opinberri umræðu, fjölmiðlum eða menningunni almennt.


Engin stéttarfélög eru starfandi fyrir meirihluta fólks sem starfar við kvikmyndagerð, en mikil vina- og hagsmunatengsl innan lítils samfélags koma í veg fyrir að fólk í fagfélögum geti tekið afstöðu gegn valdhöfum.


Enginn opinber vettvangur eða stuðningur finnst fyrir fólk sem telur að brotið hafi verið á réttindum sínum. Þetta eru kjöraðstæður fyrir spillingu og valdníðslu, þar sem jaðarsettir hópar eiga sérstaklega á hættu að verða fyrir kerfisbundinni mismunun, áreitni og útskúfun.

 

Í skýrslu Kulturanalys Norden (2024) um ógnir, áreitni og ofbeldi sem listamenn á Norðurlöndunum verða fyrir í starfi sínu kemur fram greinileg aukning á síðustu þremur árum.

Meðal alvarlegra afleiðinga þess er að listafólk hefur hrökklast úr verkefnum, forðast ákveðin umfjöllunarefni, forðast að koma fram opinberlega og jafnvel þurft að grípa til sérstakra ráðstafana til að tryggja öryggi sitt eða leita sér utanaðkomandi stuðnings.

Af þeim íslensku myndlistarmönnum og höfundum sem tóku þátt í könnuninni sögðust 41–43% hafa upplifað ógnir, áreitni og ofbeldi á einhverjum tímapunkti á sínum ferli.


 Þegar stofnanir sem fólk treystir og leitar til í kjölfar áfalla bregðast, og þegar brot sem einstaklingar hafa orðið fyrir eru ekki viðurkennd, geta skaðlegar afleiðingar áfallsins margfaldast (Smith og Freyd). Þegar enginn þarf að axla ábyrgð eða mæta afleiðingum gjörða sinna fær ofbeldi og misrétti í raun „grænt ljós“ frá samfélaginu og viðgengst.

Þegar þögnin verndar valdið, er vandinn kerfislægur.


Heimildir:


Carta, M., Fadda, B., Rapetti M. og Tasca, C. 2012. „Women And Hysteria In The History Of Mental Health.“ Clinical Practice and Epidemiology in Mental Health 8 (1): 110–119. https://doi.org/10.2174/1745017901208010110.


Kulturanalys Norden. 2024. Threats, Violence and Harassment against Artists and Authors in the Nordic Countries.Nordisk kulturfakta 2024:05. Copenhagen: Nordic Council of Ministers. http://dx.doi.org/10.6027/nord2024-045.

 

Lerner, G. 1986.The Creation of Patriarchy.Oxford: Oxford University Press.


Smith, C., P. og Freyd, J., J. 2014. „Institutional Betrayal.” American Psychologist 69 (6): 575–87. https://doi.org/10.1037/a0037564.

 

 

 
 
 
bottom of page