Allt er breytingum háð
- Dóra Jó
 - 6 days ago
 - 3 min read
 
Skilaboðin sem við höfum alist upp við í vestrænu samfélagi eru oft þau að það sé óæskilegt að eldast. Fólk reynir frekar að koma í veg fyrir og hylma yfir þá óhjákvæmilegu staðreynd, í stað þess að horfast í augu við fegurðina sem felst í hringrás lífsins.
Oftar en ekki er litið framhjá elstu kynslóðinni, eða talað um hana sem vandamál, þegar hún mætti frekar vera í hávegum höfð innan samfélagsins.

Ég mæli mikið með þessari frábæru heimildamynd eftir Yrsu Roca Fannberg sem sýnd er í Bíó Paradís.
Leikstjórinn nálgast umfjöllunarefnið, heldra fólk sem býr á Grund, af aðdáunarverðri næmni, kærleika og virðingu. 15 ára sonur minn kom með mér á myndina og var líka hrifinn, en hann bjó á Brávallagötu, við hliðina á hjúkrunarheimilinu, frá fæðingu þar til nýlega.
Þegar ég ferðaðist um Mexíkó nýlega, fór ég í nokkra spænskutíma. Þegar ég talaði um gamalt fólk, sagði ég „los viejos,“ eins og ég hafði áður lært. En spænskukennarinn leiðrétti mig, þrátt fyrir að það væri tæknilega rétt. Hún útskýrði að í Mexíkó þætti meiri virðing falin í því að kalla eldra fólk „los avanzados“, sem þýðir beint „hin lengra komnu.“
Í tilefni nýliðins kvennaverkfalls og þess að Íslensku sjónvarpsverðlaunin eru afhent í fyrsta skipti í næstu viku, langar mig að halda áfram að deila textabrotum úr ritgerðum sem ég skrifaði í ritlistarnáminu, sem ég útskrifaðist úr fyrir helgi (með fyrstu einkunn!), þar sem ég fjalla m.a. um kvikmyndagerð og birtingarmyndir jaðarsettra hópa:
„Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) eru aldursfordómar rótgrónir og meira samfélagslega samþykktir en aðrir fordómar og oft flokkaðir sem saklaust grín. Þetta hefur skaðleg áhrif á viðhorf fólks og samskipti við eldri kynslóðir og framtíðarsýn allra sem munu vonandi fá að lifa nógu lengi til að verða hluti þessa hóps. Aldurshópurinn 60-80 fer ört stækkandi í heiminum og áhyggjuefni hvernig fjölmiðlar og menningarefni sýnir þennan hóp, eða lítur fram hjá honum, sem hefur skaðleg áhrif á viðhorf fólks og stjórnvalda til eldra fólks (Liddy).
Kvikmyndir og sjónvarp geta haft mikil áhrif á viðhorf og ákvarðanir fólks. Ferðamálastofa hefur áætlað að 37,4% ferðamanna sem heimsækja landið hafi fengið hugmyndina vegna þess að þeir sáu íslenskt landslag í kvikmynd eða sjónvarpsefni (Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda).
Af 100 tekjuhæstu kvikmyndum frá Hollywood árið 2024 voru aðeins 26% af kvenkyns persónum eldri en 40 ára á meðan 55% af karlkyns hlutverkum voru komnir yfir fertugt (Lauzen). Sú staðreynd að eldri leikkonum bjóðast mun færri hlutverk en eldri karlkyns leikurum er dæmi um kerfisbundna útilokun sem er hluti af stærra mynstri í samfélaginu þar sem konur missa tækifæri með aldrinum en á sama tíma öðlast karlar aukna virðingu og völd.
Fólk af öllum kynjum sem tilheyrir jaðarsettum hópum er í miklum minnihluta þegar kemur að lykilstörfum í kvikmyndabransanum og í þeim hlutverkum sem birtast á skjánum (Liddy).“
(Textinn var fyrst birtur á facebook síðu Dóru 26.október 2025).
Heimildir:
Lauzen, M. M. 2025. „The Celluloid Ceiling: Employment of Behind-the-Scenes Women on Top Grossing U.S. Films in 2024.“ Celluloid Ceiling. https://womenintvfilm.sdsu.edu/wp-content/uploads/2025/01/2024-Celluloid-Ceiling-Report.pdf.
Lauzen, M. M. 2025. „It’s a Man’s (Celluloid) World: Portrayals of Female Characters in the Top Grossing U.S. Films of 2024.“ Celluloid Ceiling. https://womenintvfilm.sdsu.edu/wp-content/uploads/2025/02/2024-Its-a-Mans-World-Report.pdf.
Liddy, S. 2020. „The Gendered Landscape in the International Film Industry: Continuity and Change.“ Women in the International Film Industry, ritstj. Liddy, S. Sviss: Springer Nature.
Liddy, S. 2023. Women, Ageing and the Screen Industries. Cham: Springer International Publishing. https://doi.org/10.1007/978-3-031-18385-0.
Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda. 2025. „Skattaleg áhrif íslensks kvikmyndaiðnaðar árið 2025.“ Reykjavik Economics. https://www.si.is/media/nyskraning-og-throun/Skattahrif-kvikmyndaidnadar2025.pdf.